Úrræði vegna lögmannskostnaðar

Þegar leita þarf aðstoðar lögmanns fylgja því gjarnan áhyggjur af hugsanlegum kostnaði. Lögmannsþjónusta er dýr sérfræðiþjónusta. Hins vegar eru úrræði sem standa einstaklingum til boða, sem létta á þeim kostnaði. Einstaklingur getur átt rétt á gjafsókn (eða gjafvörn), sem þýðir að ríkið greiðir þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns hans o.fl. Margir einstaklingar eru einnig með heimilistryggingu og/eða fasteignatryggingu. Í mjög flestum heimilistryggingum/fasteignatryggingum er ákvæði um að vátryggingafélag greiði málskostnað ef vátryggingataki þarf að reka dómsmál, hvort heldur sem er til sóknar eða varnar. Eitt það fyrsta sem lögmaður gerir þegar til hans er leitað með mál sem reka þarf fyrir dómi er að kanna hvort viðkomandi uppfylli skilyrði til að fá gjafsókn eða hvort viðkomandi hafi tryggingar sem leita má í vegna kostnaðar lögmanns. Lögmaðurinn sér um að sækja um gjafsókn eða sækja bætur úr málskostnaðartryggingunni. Rétt er að gera nánari grein fyrir þessum úrræðum.

 GJAFSÓKN / GJAFVÖRN

Gjafsókn er notað bæði um gjafsókn og gjafvörn. Gjafsókn er veitt vegna mála sem rekin eru fyrir íslenskum dómstólum. Þannig verður gjafsókn ekki veitt vegna reksturs mála á stjórnsýslustigi eða erlendum dómstólum. Gjafsókn er aðeins veitt einstaklingum en ekki lögaðilum, s.s. fyrirtækjum eða félögum. Hver sá einstaklingur sem getur átt aðild að dómsmáli hér á landi, án tillits til ríkisborgararéttar, getur átt rétt til gjafsóknar. Gjafsókn verður ekki veitt eftir að dómur hefur verði kveðinn upp.

Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Þóknun lögmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls er ákveðin í dómi eða úrskurði. Ríkið verður því ekki skuldbundið til að greiða allan lögmannskostnað gjafsóknarhafa, heldur aðeins þá fjárhæð sem dómari ákveður handa honum. Heildar lögmannskostnaður er stundum hærri en sú fjárhæð sem dómari ákveður.

Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli. Gjafsókn nær einnig til kostnaðar af fullnustu réttinda gjafsóknarhafa með aðför og nauðungarsölu, nema annað sé tekið fram í gjafsóknarleyfinu. Gjafsókn breytir því ekki að gjafsóknarhafa kann sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað, ef hann tapar máli.

Til að fá gjafsókn þarf efnahag umsækjanda að vera þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skal höfð hliðsjón af skattleysismörkum tekju- og eignarskatts á hverjum tíma. Einnig skal litið til samanlagðra tekna og eigna umsækjanda og maka eða sambúðarmanns. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum og eignum foreldra. Við matið skal einnig tekið tillit til eftirfarandi atriða:

 1. framfærslubyrði umsækjanda,
 2. umfangs máls og væntanlegs málskostnaðar,
 3. vaxtagjalda af skuldum vegna eigin íbúðar sem umsækjandi býr í,
 4. annars óhjákvæmilegs kostnaðar sem umsækjandi hefur vegna framfærslu umfram venjubundinn framfærslukostnað,
 5. fjármagnstekna og skattfrjálsra tekna og eigna.

Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Við mat á því hvort umsækjandi um gjafsókn hefur nægilegt tilefni til málshöfðunar er meðal annars höfð hliðsjón af eftirtöldum atriðum:

 1. hversu ríka hagsmuni umsækjandi hefur af úrlausn máls, meðal annars með tilliti til væntanlegs málskostnaðar,
 2. hverjir eru aðilar málsins, þar á meðal hvort málið er á milli nákominna,
 3. hugsanlegu tómlæti og sönnunarvanda,
 4. hvort leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þar á meðal fyrir stjórnvöldum og öðrum úrskurðaraðilum,
 5. hvort gagnaöflun utan réttar er lokið og málshöfðun tímabær,
 6. niðurstöðu héraðsdóms ef sótt er um gjafsókn fyrir Hæstarétti.

MÁLSKOSTNAÐARTRYGGING / RÉTTARAÐSTOÐARTRYGGING

Hlutverk málskostnaðartryggingar (heitið er misjafnt og fer eftir tryggingarfélagi) er að greiða málskostnað lögmanns í einkamálum. Stundum þurfa einstaklingar að höfða mál, en stundum er einstaklingum stefnt og ráða þá ekki við það að lenda í dómsmáli. Málskostnaðartrygging, líkt og gjafsókn, greiðir kostnað lögmannsins, hvort sem maður er til sóknar eða varnar. Ólíkt gjafsókn greiðir tryggingin einnig kostnað sem maður þarf að greiða gagnaðila sínum, tapi maður máli. Það athugast þó, að tiltekið bótahámark er á tryggingunni. Einnig eru ýmsar takmarkanir á þeim málaflokkum sem málskostnaðartryggingar taka til. Þannig bæta tryggingarnar t.d. yfirleitt ekki málskostnað í hjónaskilnaðarmálum og vegna sambúðarslita, málum sem tengjast atvinnu manna eða vegna ábyrgða sem menn hafa undirgengist. Ef mál varðar fasteignir, t.d. gallamál, þá dugar ekki að hafa bara heimilistryggingu, heldur þarf þá einnig að hafa sérstaka fasteignatryggingu. Tryggingarnar hafa það að markmiði að einstaklingar skaðist ekki mjög fjárhagslega af því að þurfa að reka dómsmál. Alla jafna á hámark vátryggingafjárhæðarinnar að duga fyrir þeim kostnaði sem til fellur, en sjálfsábyrgð vátryggingartaka er þó alla jafna um 20%.