Um tvískinnung íslenskra barnaverndaryfirvalda

Um tvískinnung íslenskra barnaverndaryfirvalda

05.07.2012

Um tvískinnung íslenskra barnaverndaryfirvalda

Eftir Hrein Loftsson hrl.

Í upphafsákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram það meginsjónarmið, sem lögin eru reist á, að barn eigi rétt á sérstakri vernd og umönnun. Þessi grundvallarsjónarmið koma fram í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur; hagur þeirra og þarfir skulu ávallt vera í fyrirrúmi. Foreldri, sem leitar ásjár yfirvalda og biður um vernd fyrir börn sín vegna yfirvofandi hættu, er ekki einungis að biðja um hjálp heldur felst jafnframt í beiðninni að yfirvöldin sjálf umgangist börnin af varfærni og virðingu.

Hjördís Svan biðlar til íslenskra stjórnvalda

Í máli Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur liggur fyrir að hún hefur fórnað öllu í baráttu sinni fyrir börn sín. Hún hefur verið útmáluð sem lögbrjótur í fjölmiðlum eftir að hún hefur ítrekað leitað til íslenskra stjórnvalda um liðveislu vegna meints ofbeldis. Þess vegna hefur hún strokið tvisvar með þau frá Danmörku til Íslands í þeirri von að hér fengi hún skjól, sem hún telur sig ekki hafa fengið í Danmörku. Í seinna skiptið strauk hún – það var í janúar á þessu ári –  þegar ljóst varð að vottorð læknis um meint harðræði föðursins myndi ekki breyta neinu um þá afstöðu danskra dómstóla að dæma sameiginlegt forræði og að lögheimilið skyldi vera hjá föðurnum.

Hjördís fór þá til Íslands og lagði málið í hendur íslenskra yfirvalda þegar við heimkomuna. Málið lenti á endanum á borði barnaverndarnefndar Kópavogs. Sem lögmaður hennar fór ég og fulltrúi minn þess á leit við yfirvöld að skoðað yrði og metið af íslensku fagfólki hvort börnin hefðu mátt þola harðræði á grundvelli þriggja tilkynninga og vottorða frá dönsku sjúkrahúsi. Í 1. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun, sem heyrir undir barnaverndarnefnd, geti formaður hennar eða starfsmaður í hans umboði framkvæmt hana án undangenginnar málsmeðferðar. Á grundvelli þessa lagaákvæðis var þess farið á leit við barnaverndarnefnd Kópavogs að stúlkurnar þrjár yrðu kyrrsettar áður en þær yrðu sendar utan og afhentar föður sínum. Fullt tilefni var fyrir íslensk barnaverndaryfirvöld að kyrrsetja stúlkurnar á meðan málið væri rannsakað í stað þess að taka börnin úr umráðum móður með aðkomu sýslumanns og lögreglu.

Hér er um að ræða ný gögn sem íslenskir dómstólar hafa ekki tekið afstöðu til.

Börnin fengu ekki að njóta vafans

Íslenskum stjórnvöldum er heimilt að synja um afhendingu barns í samræmi við lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., nr. 160/1995, ef  alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu og ef afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda.

Beiðni Hjördísar var hafnað þrátt fyrir nýjar upplýsingar og gögn. Börnin voru tekin af móður sinni og beitt var ótrúlegri hörku og ónærfærni gagnvart börnunum. Einkennisklæddir lögreglumenn voru á vettvangi. Ábyrgðin á framkvæmdinni hvílir hjá barnaverndaryfirvöldum í Kópavogi. Þau höfðu tilefni og vald til að grípa inn í atburðarásina.

Hið eina sem Hjördís bað um var að íslenskir fagaðilar skoðuðu hvað hæft væri í ásökunum um ofbeldi gagnvart stúlkunum – þær ásakanir voru sem fyrr segir studdar gögnum frá dönsku sjúkrahúsi – áður en þær yrðu sendar til dvalar hjá föðurnum. Skoðun sérfræðinga í Barnahúsi hefði væntanlega leitt í ljós hvort stúlkunum væri raunverulega hætta búin. Hjördís var viss um að sannleikurinn kæmi í ljós og ekki yrði af flutningi stúlknanna til föðurins. Hún taldi líka að það væri í samræmi við allar undirstöðureglur laga og alþjóðlegra sáttmála; að stúlkurnar fengju að njóta vafans. Á hinn bóginn er augljóst að Hjördís hefði ekki verið í neinni stöðu til að halda börnunum á Íslandi ef hið gagnstæða hefði komið í ljós. Þá hefði hún líkast til farið sjálf með börnin til Danmerkur líkt og hún gerði vorið 2011 þegar niðurstaða dómstóla lá fyrir um skyldu hennar til að vera með börnin í Danmörku á meðan forsjármál væri rekið fyrir dönskum dómstólum. Því máli var lokið. Hér var því um nýtt mál að ræða er laut að ásökunum Hjördísar um harðræði.

Tvískinnungur í afgreiðslu málsins

Eitt af því sem barnaverndarnefnd Kópavogs hefur borið fyrir sig er að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar, sem heimili þeim að kyrrsetja börnin á Íslandi. Orðrétt segir í bréfi þeirra til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, frá 1. júlí sl.: „Ekki hafa komið fram nýjar upplýsingar sem breyta afstöðu nefndarinnar.“

Í ljósi þessa er athyglisvert að lesa yfirlýsingu, sem Hjördísi hefur borist frá barnaverndarnefnd Kópavogs og nefndin hefur sent dönskum félagsmálayfirvöldum, sem einnig er dags. 1. júlí 2012, en þar segir m.a.: „Þrjá tilkynningar til barnaverndar liggja fyrir ókannaðar. Þær bárust frá heimilislækni stúlknanna til Glostrup Kommune og eru dagsettar 13. desember 2011, 3. janúar 2012 og 12. janúar 2012. Í þeim kemur fram að stúlkurnar hafi verið beittar harðræði og X hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi í umgengni hjá föður. Mjög mikilvægt er að kanna þessar tilkynningar, að rætt verði við stúlkurnar og þeim veittur sá stuðningur sem nauðsynlegur er … “

Hér gætir mikils tvískinnungs. Annars vegar segir nefndin í skeyti til ráðherrans að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar, sem geri henni kleift að kyrrsetja börnin. Hins vegar bendir hún dönskum félagsmálayfirvöldum á nýjar upplýsingar, sem þurfi að kanna þegar börnin eru komin til Danmerkur! Þar er um að ræða upplýsingarnar, sem Hjördís lagði inn á borð til nefndarinnar og bað um að yrðu kannaðar, en sem gagnvart henni þóttu ekki nægilega afgerandi til að réttlæta skoðun hér á landi. Í þessum tvískinnungi liggur kjarni málsins. Íslenska barnaverndaryfirvöld vildu einfaldlega ekki skipta sér af málinu. Heimildin var fyrir hendi, tilefni og nýjar upplýsingar lágu fyrir en viljinn var ekki til staðar.