Tjáningarfrelsi blaðamanna í ljósi nýlegra dóma.

Tjáningarfrelsi blaðamanna í ljósi nýlegra dóma.

Erindi Hreins Loftssonar hrl. á ráðstefnu um tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda 22. janúar 2013

Á árunum 2008-2011 þurftu fjölmiðlar í eigu Birtíngs og tengdra félaga á þeim tíma að verjast í 15 meiðyrðamálum með verulegum tilkostnaði bæði fyrir útgáfuna og viðkomandi blaðamenn. Lætur nærri að sá kostnaður nemi samtals um 30 m. kr. þegar allt er meðtalið. Þetta er verulega stór biti að kyngja fyrir tiltölulega lítið fyrirtæki og stefndi starfsemi þess í tvísýnu á erfiðum tímum í kjölfar efnahagshrunsins. Ég viðurkenni fúslega, að vinnubrögð blaðamanna voru ekki alltaf til fyrirmyndar, en svo finnast dómar þar sem niðurstaðan er fráleit; efnislega röng og/eða dæmdar miskabætur og málskostnaður í engu samræmi við alvarleik brotsins. Ég tel ekki eðlilegt, að miskabætur í meiðyrðamálum séu metnar hærri heldur en í alvarlegum líkamsmeiðinga- og ofbeldismálum. Slík dómaframkvæmd er til þess fallin að grafa undan möguleikum fjölmiðla til að sinna starfi sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kennt við „varðhunda almennings“.

Vissulega verða blaðamenn að vanda sína vinnu og huga að trúverðugleika sínum, en þær kröfur, sem íslenskir dómstólar hafa í sumum tilvikum gert til starfa þeirra, hafa farið langt út fyrir eðlileg mörk. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur séð ástæðu til að gagnrýna íslenska dómstóla fyrir að skipta sér af verklagi og efnistökum blaðamanna og fyrir að beita ekki viðurkenndri greiningaraðferð dómstólsins í dómum sínum. Eftir að holskefla allra þessara málaferla gekk yfir í mínum rekstri hefur verið farið yfir alla verkferla og sett upp verklag, sem á að tryggja betri vinnubrögð. Að því leyti má segja, að málareksturinn hafi verið nýttur til góðs, en eftir situr efinn um niðurstöður sumr þeirra mála, sem ekki var farið með til Strassborgar og sú áleitna spurning, hvort íslenskir dómstólar hafi með niðurstöðum sínum í nýlegum dómum dregið úr kjarki og vilja blaðamanna til að fjalla á gagnrýninn hátt um viðkvæm málefni.

Ég tel að dómar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. júlí 2012 í málum þeirra Bjarkar Eiðsdóttur á Vikunni og Erlu Hlynsdóttur á DV gefi nokkuð góða mynd af afstöðu íslenskra dómara hvað varðar túlkun á mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einkum 10. gr. Nú er að vísu búið að breyta lögum og ekki lengur hætta á, að blaðamenn verði dæmdir í refsingu fyrir ummæli, sem þeir hafa sannanlega rétt eftir viðmælendum sínum, en ég tel að viðhorfin til tjáningarfrelsisins og þeirra 5 mælistika um málfrelsi, sem er greiningaraðferð Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun á 10. gr. sáttmálans, hafi lítið breyst að öðru leyti. Íslenskir blaðamenn þurfa því enn um sinn að búa við það starfsumhverfi, að endanlegan rétt verði þeir undir vissum kringumstæðum að sækja til Strassborgar. Þar bíða nú tvö mál íslensks blaðamanns úrlausnar, eftir að þau voru úrskurðuð tæk til flutnings fyrir dómstólnum. Mannréttindadómstóllinn beindi fyrirspurn til íslenska ríkisins um mögulegar sættir, eftir að dómarnir tveir féllu síðasta sumar, en fulltrúi innanríkisráðuneytisins tjáði mér í síðustu viku, að tekið yrði til varna þar sem ekki væri um sambærileg mál að ræða. Það reyndi á önnur atriði en í málum þeirra Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur.

Ég mun hér á eftir rekja helstu atriðin í dómm Mannréttindadómstólsins frá 10. júlí 2012 og leggja mat á líkleg áhrif þeirra á íslenska dómaframkvæmd. Þegar dómar féllu hér á landi í viðkomandi málum árið 2009 heyrðust gagnrýnisraddir úr röðum lögmanna og fræðimanna þess efnis, að dómarnir fælu í sér fráhvarf frá eldri dómaframkvæmd og væru ekki í samræmi við túlkun íslenskra fræðimanna á 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu allt frá lögtöku hans 1994. Á nýlegri ráðstefnu kom fram sú skoðun sérfræðings á þessu sviði, að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu hefði því ekki komið fræðimönnum á óvart og að niðurstöður íslenskra dómstóla hefðu verið „slys“.

En var um „slys“ að ræða og er útilokað að þau endurtaki sig? Hafa íslenskir dómarar tileinkað sér aðferðafræði Mannréttindadómstóls Evrópu í meiðyrðamálum, „mælistikurnar 5“ sem ég gat um hér að framan? Þessar mælistikur eru (1) hvort um tjáningu sé að ræða sem njóti verndar og ef svo er, (2) hvort frelsi til þeirrar tjáningar hafi verið skert, (3) hvort heimild hafi verið til skerðingar í lögum, (4) hvort lögmætt markmið hafi búið að baki skerðingar og loks (5) hvort skerðing hafi verið nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Síðan er gerð krafa um, að þess sjáist merki í röksemdum og niðurstöðum dómstóla, að þessari greiningaraðferð hafi verið beitt. Við skulum skoða aðeins nánar málin frá liðnu sumri, en þau fela í sér dæmi um að íslenskir dómstólar hafi ekki farið eftir þessari greiningaraðferð Mannréttindadómstóls Evrópu.

Fyrra málið laut að viðtali Bjarkar Eiðsdóttur blaðamanns Vikunnar við íslenska nektardansmær, en viðtalið birtist í Vikunni í ágúst 2007. Það ár fór fram almenn umræða í prent- og ljósvakamiðlum um nektardansstaði og hvort herða ætti á reglum eða banna rekstur slíkra staða. Blaðamaðurinn hljóðritaði viðtalið og vélritaði síðan upp eftir hljóðrituninni. Í viðtalinu var m.a. að finna lýsingu á vændi, eiturlyfjaneyslu og hótunum í tengslum við starf dansarans á nektardansstaðnum „Goldfinger“. Mynd var af eiganda staðarins með umfjölluninni og honum gefinn kostur á að tjá álit sitt á staðhæfingum dansarans. Eigandinn hafnaði öllum ásökunum og höfðaði meiðyrðamál gegn blaðamanninum, ritstjóra Vikunnar og dansaranum, sem setti fram gagnrýnina á starfsemi staðarins í viðtalinu.

Í meiðyrðamálinu var þess krafist að fjölmörg tilgreind ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk. Einnig var krafist hárra miskabóta auk málskostnaðar og annars kostnaðar. Eftir að málið var dómtekið brá svo við að eigandi staðarins gerði dómsátt við nektardansmeyna og féll hann frá málsókn á hendur henni. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að nokkur ummæli dansarans fælu í sér ærumeiðingu og hún bæri ábyrgð á þeim, en á hinn bóginn yrðu blaðamaður og ritstjóri tímaritsins ekki taldi ábyrgir og var málinu vísað frá dómi. Eigandi staðarins skaut málinu til Hæstaréttar Íslands og með dómi réttarins 5. mars 2009 var hafnað áfrýjun er varðaði ritstjórann, en fallist á, að blaðamaðurinn bæri ábyrgð á nokkrum ummælum, sem höfð voru eftir dansaranum í viðtalinu. Var blaðamaðurinn dæmdur til að greiða 500 þús. kr. í miskabætur og 400 þús. kr. ásamt vöxtum í málskostnað.

Í niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. júlí 2012 var þessi niðurstaða Hæstaréttar Íslands gagnrýnd og íslenska ríkið dæmt til að greiða blaðamanninum u.þ.b. 5 m. kr. samtals í fébætur, miskabætur, og vegna kostnaðar og útgjalda.

Síðara málið laut að umfjöllun í DV um atvik á nektardansstaðnum „Strawberries“. Eigandi staðarins hafði samband við Erlu Hlynsdóttur, blaðamann hjá DV, og greindi henni frá átökum sínum við mann nokkurn inni á skemmtistaðnum, sem hann taldi vera útsendara frá eiganda „Goldfingers“ til að valda leiðindum. Blaðamaðurinn birti umfjöllun um málið í lok febrúar 2009 undir fyrirsögninni „Strípikóngar takast á.“ Í greininni kom fram lýsing allra hlutaðeigandi og haft var eftir „árásarmanninum“ að eigandi „Strawberries“ væri sjálfur að bera orðróm út um allan bæ þess efnis að það komi enginn með stæla inn á stað hans því hann sé þar með litháísku mafíuna og að „árásarmaðurinn“ hefði verið tekinn og laminn inni á staðnum. Millifyrirsögn í greininni vísaði til þessara orða um litháísku mafíuna. Eigandi „Strawberries“ var ósáttur við frásögnina þar sem honum fannst sín lýsing ekki fá nógu mikið vægi og stefndi blaðamanninum fyrir meiðyrði. Hann krafðist 2 m. kr. í miskabætur, auk málskostnaðar og annars kostnaðar.

Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu með dómi 21. desember 2009, að sá hluti ummæla, sem höfð voru eftir meintum „árásarmanni“, að eigandi „Strawberies“ væri sjálfur að bera út sögur um bæinn um viðveru litháísku mafíunnar á staðnum, væri til þess fallinn að vekja þau hughrif hjá lesendum greinarinnar, að eigandi staðarins væri með skipulögð alþjóðleg glæpasamtök á sínum snærum. Hafi blaðamaðurinn ekki sýnt fram á, eða gert sennilegt, að sú staðhæfing væri sönn, þótt hún væri réttilega höfð eftir „árásarmanninum“. Í þessu fælist ærumeiðandi aðdróttun sem bæri að ómerkja svo og millifyrirsögn varðandi orðróm um mafíutengsl. Var blaðamaðurinn dæmdur til að greiða eiganda nektarstaðarins 200 þús. kr. í miskabætur, 150 þús. kr. til að birta dóminn opinberlega og 350 þús. kr. í málskostnað. Hæstiréttur synjaði blaðamanninum um heimild til áfrýjunar málsins og var synjunin á því byggð, að fjárkrafan næði ekki lögboðnu lágmarki til áfrýjunar og engar sérstakar aðstæður réttlættu undanþágu frá þessu skilyrði laga um áfrýjun.

Mannréttindadómstóll Evrópu gagnrýndi þessa niðurstöðu einnig harðlega í dómi sínum 10. júlí 2012 og dæmdi íslenska ríkið til að greiða blaðamanninum nær 3,5 m. kr. í fébætur, miskabætur og vegna kostnaðar og útgjalda.

Ég mun nú lýsa helstu gagnrýni Mannréttindadómstólsins á niðurstöður íslenskra dómstóla í þessum tveimur málum.

Í fyrsta lagi minnti dómstóllinn á mikilvægt hlutverk fjölmiðla í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þótt fjölmiðlar mættu ekki fara út fyrir tiltekin mörk, einkum að því er varðar mannorð og réttindi annarra og nauðsyn þess að koma í veg fyrir birtingu trúnaðarupplýsinga, væri það eigi að síður hlutverk þeirra að miðla upplýsingum og hugmyndum um öll málefni, sem vörðuðu hagsmuni almennings. Frelsi blaðamanna næði jafnvel til þess að ýkja og/eða ögra. Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur við dansmeyna hafi varðað málefni, sem skipti almenning á Íslandi eins og í öðrum Evrópuríkjum verulegu máli. Hvergi sé þó að sjá í niðurstöðu Hæstaréttar, að þetta efni hafi skipt nokkru máli né verið talið eiga að hafa áhrif á mat réttarins.

Dómstóllinn hafnaði því sjónarmiði íslenska ríkisins í máli Erlu Hlynsdóttur, að ekki hafi verið um mikilvægt samfélagslegt málefni að ræða. Að mati dómsins miðaði umfjöllun hennar að því að varpa ljósi á ofbeldisfull átök millli eigenda nektardansstaða. Enginn vafi gæti leikið á því að greinin tengdist víðtækara málefni og ætti lögmætt erindi til almennings. Ekki væri unnt að sjá af röksemdafærslu héraðsdóms, að þetta sjónarmið hafi haft nokkuð vægi eða verið talið skipta máli varðandi mat réttarins.

Í öðru lagi segir dómstóllinn, að vernd réttar blaðamanna til að miðla upplýsingum um mikilvæg málefni krefjist þess að þeir starfi í góðri trú veiti áreiðanlegar og nákvæmar upplýsingar. Réttinum til tjáningarfrelsis fylgi skyldur og ábyrgð, einnig í umfjöllun um þjóðfélagslega mikilvæg málefni. Um getur verið að tefla orstír nafngreinds fólks og aðför að réttindum annarra. Því segir dómstóllinn, að sérstök rök þurfi að vera til þess að fjölmiðlar séu leystir undan almennri skyldu til þess að sannreyna staðhæfingar, sem eru meiðandi fyrir einstaklinga. Hvort slík rök eigi við í einstökum tilvikum fari eftir eðli viðkomandi ærumeiðingar og hversu langt hún gangi svo og þess að hve miklu leyti fjölmiðlar geti reitt sig á áreiðanleik heimilda sinna að því er varðar ásakanir.

Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur við dansmeyna hafi vissulega falið í sér ásakanir um refsiverða háttsemi á hendur eiganda „Goldfingers“ en – og það er mikilvægara – að í ljósi þýðingar umræðuefnisins hafi eigandi staðarins óhjákvæmilega farið inn á hið opinbera svið og þurfi því að sæta verulegri könnun á aðgerðum sínum.

Hið sama gildir um eiganda „Strawberries“, hann hafi stigið fram á sjónarsvið almennings og gengist undir að náið yrði fylgst með framferði hans, sem eiganda slíks staðar. Mörk ásættanlegrar gagnrýni væru rýmri gagnvart manni í slíkri stöðu heldur en ef um væri að ræða einstakling í einkalífi eða almennu starfi.

Í þriðja lagi taldi dómstóllinn greiningu héraðsdómsins á innihaldi ummælanna ósannfærandi í máli Erlu Hlynsdóttur og það gæfi tilefni til að efast um hvort forsendur dómsins giltu um það lögmæta markmið, að vernda rétt og mannorð eiganda skemmtistaðarins. Héraðsdómurinn virtist ekki leiða merkingu ummælanna af orðanna hljóðan heldur af almennum tón þeirra. Þannig væri ekki skýrt hvernig almennur lesandi gæti skilið ummælin á þann veg, að eigandi skemmtistaðarins væri með alþjóðleg glæpasamtök á sínum snærum; hvað þá að hann væri í tygjum við eitthvað, sem lýst væri sem „litháískri mafíu.“ Orðin mætti vel skilja sem svo, að þeir, sem þannig hafi verið lýst, hafi verið í húsnæði staðarins.

Í fjórða lagi er héraðsdómur gagnrýndur fyrir að hafa ekki gert nægilegan mun á staðhæfingum og gildisdómum í dómi sínum í máli Erlu Hlynsdóttur. Það hafi takmarkað mjög möguleika blaðamanns að færa sönnur á staðhæfingar, að eigandi skemmtistaðarins höfðaði aðeins mál gegn blaðamanninum, en aðilanum, sem viðhafði hin umdeildu ummæli. Mannréttindadómstóllinn vekur athygli á frumkvæði eiganda staðarins sjálfs. Í frásögn hans fólst gagnrýni á samkeppnisaðila og hinn meinta árásarmann. Hann hefði mátt vita, að hann kynni sjálfur að sæta gagnrýni og yrði því að sýna meira umburðarlyndi af þeim sökum. Blaðamaður hafi reynt að gæta jafnræðis og birt útgáfur allra hlutaðeigandi af atvikinu. Blaðamenn og fjölmiðlar hljóti að hafa eigin sjónarmið um aðferðafræðina að leiðarljósi. Það sé ekki hlutverk dómstólsins eða dómstóla einstakra landa, að setja fram eigin sjónarmið í stað sjónarmiða fjölmiðlanna sjálfra um þær aðferðir, sem blaðamenn ættu að beita við fréttamennsku.

Loks ítrekar dómstóllinn í fimmta lagi í máli Erlu Hlynsdóttur, að viðtöl, hvort sem þeim er ritstýrt eða ekki, séu ein mikilvægasta aðferð fjölmiðla til þess að gegna hlutverki sínu sem „varðhundur almennings.“ Refsing blaðamanna fyrir að hafa milligöngu um miðlun staðhæfinga annarra í viðtali myndi torvelda með alvarlegum hætti framlag fjölmiðla til umræðu um efni sem eiga erindi við almenning og ætti ekki að kom til álita nema sérstaklega brýnar ástæður væru til þess. Þótt þetta atriði hafi að því er virðist ekki skipt máli að mati héraðsdóms, er Mannréttindadómstóllinn ekki sannfærður um, að neinum slíkum brýnum ástæðum hafi verið til að dreifa í máli Erlu Hlynsdóttur. Gloppurnar í greiningu héraðsdóms leiði til þeirra niðurstöðu, að ekki sé unnt að gagnrýna blaðamanninn fyrir að láta undir höfuð leggjast að grennslast fyrir um sannleiksgildi hinna umdeildu staðhæfinga og að blaðamaður hafi borið sig að í góðri trú í samræmi við þá kostgæfni, sem ætlast mætti til af ábyrgum fréttamanni sem flytur fréttir af málefni sem ætti erindi við almenning.

En hvaða lærdóma má draga af niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í framangreindum málum?

Í fyrsta lagi vörðuðu dómarnir ummæli, sem voru höfð réttilega eftir öðrum. Í báðum tilvikum var ekkert athugavert við vinnubrögð blaðamannanna og þeim dæmdar tiltölulega háar fébætur. Dómarnir særðu réttlætiskennd mjög margra og þóttu óréttlátir. Menn sáu ranglæti í því að blaðamanni væri refsað þó að sannað væri að hann hefði rétt eftir viðmælanda sínum meðan aldrei gæti komið til refsiábyrgðar fréttamanns í útvarpi eða sjónvarpi vegna ummæla viðmælanda hans. Sú niðurstaða er líka í andstöðu við þá vernd, sem 10. gr. mannréttindasáttmálans mælir fyrir um (en sem reyndar er ekki tryggð í 73. gr. stjórnarskrárinnar), þ.e.a.s. að rétturinn til þess að taka á móti og miðla áfram upplýsingum og hugmyndum njóti sérstakrar verndar, en það er grundvallaratriði í starfsemi fjölmiðla. Lögum hefur nú verið breytt þannig að svona mál eiga ekki að koma fyrir aftur.

Í öðru lagi var Erlu Hlynsdóttur synjað um áfrýjun og sú ákvörðun var röng líkt og dómur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir. Gagnrýnisvert er, að Hæstiréttur rökstyður ekki slíkar ákvarðanir. Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, fékk í fyrra áfrýjun í máli sem Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, höfðaði gegn honum og vann í héraði þó að fjárhæðir væri undir fjárhæðarmörkum og væru sambærilegar fjárhæðum í máli Erlu. Í tilviki Erlu var þó um atvinnu hennar að ræða; svo mikilvægir voru hagsmunirnir í hennar tilviki. Ég tel rétt, að Björn hafi fengið að áfrýja sínu máli – til að fyrirbyggja allan misskilning – en ég tel rangt, að Erlu hafi verið meinað að áfrýja sínu máli án nokkurs rökstuðnings. Skýr fyrirmæli ættu að vera um það í lögum, að Hæstiréttur rökstyðji niðurstöður sínar um synjun áfrýjunar í meiðyrðamálum.

Í þriðja lagi var niðurstaða íslenskra dómstóla augljóslega röng og óréttlát í báðum málunum eins og umræðan á þeim tíma sýndi, enda leiddi niðurstaðan til lagabreytingar. En það kostaði langa og stranga baráttu í framhaldinu, að rétta hlut blaðamannanna, sem ekki hefði verið möguleg án stuðnings útgáfufélagsins Birtíngs, Blaðamannafélags Íslands og Lögmanna Höfðabakka. Ég tel ljóst í ljósi þessara tveggja dóma, að það hefði átt að skjóta fleiri málum af þeim 15 – sem ég gat um í upphafi – til Mannréttindadómstóls Evrópu og þá kemur strax upp í hugann svokallað „Ísafoldarmál“, þar sem einnig var fjallað um starfsemi nektardansstaða.

Í ljósi hinnar hörðu gagnrýni MDE á íslenska dómstóla er í fjórða lagi ljóst, að án íhlutunar Mannréttindadómstóls Evrópu hefðu blaðakonurnar þurft að burðast með rangláta dóma á bakinu um alla framtíð með tilheyrandi baktali og níði á samfélagsmiðlum og annars staðar, einkum ef þær voguðu sér að fjalla um umdeild og erfið mál í störfum sínum. Alltaf var talað um Erlu sem „dæmdan blaðamann“ ef hún skrifaði um áberandi mál, t.d. þegar hún skrifaði frétt um að óánægju gætti með kjör formanns VR, þá var skrifað á AMX vefnum: „dæmdur blaðamaður ræðst á formann VR“.

Í fimmta lagi er alveg klárt, að meiðyrðamál eru notuð sem tæki til þöggunar af hálfu aðila, sem vilja stöðva umfjöllun um sig eða ákveðin mál. Athyglisvert er, að skoða lista yfir þá, sem farið hafa í slík mál á síðustu árum og hve oft fólk með vægast sagt vafasaman bakgrunn stefnir í slíkum málum. Gjafsóknarleyfi virðast auðfengin fyrir fanga á Litla Hrauni til að verja æru sína og þó að mál endi með sýknu kemur sjaldan til þess að blaðamenn eða fjölmiðlar fái tildæmdan málskostnað. Þá auðveldar það málsóknir, að ekki þarf að greiða þingfestingargjöld í meiðyrðamálum líkt og í öðrum málum þar sem þau eru einkarefsimál. Afnema ætti refsiábyrgð í lögum vegna tjáningarfrelsismála; þar með yrðu þetta ekki lengur einkarefsimál. Menn ættu að höfða mál um ærumeiðingar upp á eigin fjárhagslega áhættu og skaðabætur ættu að duga vinnist mál. Allt virkar þetta hvetjandi til málsókna.

Í sjötta lagi einkennir það stefnur í meiðyrðamálum, að settar eru fram kröfur í fjölmörgum liðum í þeirri von að eitthvad haldi. Jafnvel þó að stefnt sé til ómerkingar 15-20 ummæla getur niðurstaðan falið í sér milljóna króna kostnað fyrir blaðamanninn og/eða fjölmiðilinn, jafnvel þó að talið sé að aðeins lítið brot eða jafnvel aðeins hluti úr einum eða tveimur ummælum feli í sér ærumeiðingu. Íslenskir dómstólar líta nefnilega alls ekki alltaf á heildarmyndina og réttmæti umfjöllunarinnar fyrir upplýsta umræðu um mikilvæg málefni sem eigi erindi við almenning í lýðræðisþjóðfélagi. Þeir styðjast ekki í einu og öllu við greiningaraðferð mannréttindadómstóls Evópu, sem ég lýsti hér að framan.

Loks verður ekki sagt að afstaða stjórnvalda hafi breyst þrátt fyrir dómana frá síðastliðnu sumri sbr. málin sem nú eru til umfjöllunar hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Þar reynir á aðeins önnur atriði en í málunum frá því sumar, en ég tel samt augljóst, að einnig í þeim málum hafi ekki verið gætt að aðferðafræði Mannréttindadómstóls Evrópu og um var að ræða umfjöllun um einstaklinga, sem tengdust stórum sakamálum með áberandi hætti. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi eigendur nektardansstaða hafi stigið fram á svið almennings og þyrftu að þola umfjöllun í fjölmiðlum. Slík sjónarmið eiga ekki síður við um þá einstaklinga sem koma við sögu í þessum tveimur málum. Athygli vekur að sömu aðilar mátu fyrir stjórnvöld hvort samið skyldi í þessum málum og veittu ráð um varnir í málum þeirra Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur. Þar var einnig veitt ráðgjöf um að ekki skyldi samið þegar fyrirspurn barst þess efnis frá Mannréttindadómstól Evrópu.