SKAÐABÓTARÉTTUR OG VÁTRYGGINGAR

Lögmenn Höfðabakka hafa um árabil ráðlagt viðskiptavinum sínum á sviði skaðabóta- og vátryggingaréttar. Þessi réttarsvið eru nátengd, en einnig um margt ólík. Nær allir sem slasast í umferðarslysum eru vátryggðir og fá fullar bætur og skiptir ekki máli þótt ökumaður bifreiðar hafi verið í órétti. Þá hvílir sú skylda á vinnuveitendum að tryggja starfsmenn sína vegna slysa sem þeir verða fyrir í starfi. Almennt ber sá bótaábyrgð á afleiðingum slysa sem því veldur með saknæmum hætti. Miklu skiptir að sérfræðingar annist hagsmuni þess sem fyrir slysi eða tjóni verður, en í flestum tilvikum greiðist vinna lögmannsstofunnar af þeim sem er bótaskyldur.

Skaðabótaréttur:

Þegar einstaklingur eða lögaðili verður fyrir slysi eða tjóni getur það álitamál risið hvort tjónþoli eigi rétt á bótum og hvort einhver sé skaðabótaskyldur gagnvart honum vegna tjónsins/slyssins. Um getur verið að ræða líkamstjón, tjón á munum eða hvers kyns annað tjón. Mikilvægt er í slíkum tilvikum að leita aðstoðar lögmanns sem fyrst í því skyni að tryggja sönnun og til þess að gæta þess að mál fyrnist ekki, eða að réttur glatist vegna tómlætis. Aðstoð lögmanns felst í því að meta í upphafi hvort viðkomandi eigi mögulega rétt til skaðabóta. Þá verður farið í að tryggja nauðsynleg skjöl og vottorð eftir því sem við á. Sérfræðingur leitast við að tryggja sönnun um tjónið og umfang þess. Við fylgjum síðan skaðabótakröfum eftir fyrir dómi ef það er nauðsynlegt, t.d. ef ágreiningur er um fjárhæð bóta eða bótaskyldu.

Við aðstoðum einnig einstaklinga og lögaðila sem skaðabótakröfu hefur verið beint að. Í þeim tilvikum er einnig mikilvægt að leita sem fyrst aðstoðar lögmanns.

Vátryggingar:

Ýmis mál geta risið í tengslum við vátryggingar. Algengast er að deilt sé um bótarétt og bótafjárhæð, hvort heldur sem um er að ræða líkamstjón, munatjón, kröfu úr ferðatryggingu, kröfu úr ábyrgðartryggingu sérfræðinga, s.s. lögmanna, fasteignasala, byggingastjóra og vegna ýmis konar annarra ágreiningsatriða um bótaskyldu vátryggingarfélaga. Þegar bótakröfu er beint að vátryggingafélagi er í langflestum tilvikum leyst úr slíkum málum með samkomulagi milli aðila. Þegar það gengur ekki er ráðlagt að leita aðstoðar lögmanns, hafi það þá ekki þegar verið gert. Aðstoð okkar er fólgin í samskiptum við vátryggingarfélagið, kröfugerð og eftirfylgni, hvort heldur sem er fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum eða dómstólum.