Samstarf Lögmanna Höfðabakka og Íslenskrar ættleiðingar

Samstarf Lögmanna Höfðabakka og Íslenskrar ættleiðingar

Samningurinn handsalaður

Hörður Sverrisson formaður ÍÆ og Þórður Bogason hrl. handsala samninginn

Lögmenn Höfðabakka og Íslensk ættleiðing hafa gert með sér samstarfssamning sem kveður á um að starfandi lögmenn hjá Lögmönnum Höfðabakka annist ráðgjöf til félagsins til samræmis við lög og reglugerðir um ættleiðingar og veiti jafnframt félagsmönnum þess ráðgjöf og skilgreinda þjónustu vegna margvíslegra mála sem félagsmenn standa frammi þegar sótt er um að ættleiða börn frá þeim erlendu ríkjum sem Íslensk ættleiðing annast milligöngu um. Meðal verkefna Íslenskrar ættleiðingar er að annast meðferð umsókna kjörforeldra um ættleiðingu, samskipti við upprunaríki, sýslumann og kjörforeldra, skipuleggja námskeið til undirbúnings ættleiðingar, veita ráðgjöf eftir ættleiðingu og senda eftirfylgniskýrslur til upprunalands um stöðu barns eftir komu þess til landsins. Það er Lögmönnum Höfðabakka mikil ánægja að fá félagið í hóp sinna viðskiptavina. Íslensk ættleiðing og Lögmenn Höfðabakka munu í samstarfi sínu leggja megináherslu á að styrkja ættleiðingarfélagið enn frekar í því hlutverki að tryggja að ættleiðing barns frá erlendu ríki fari fram þannig að gætt hafi verið íslenskra laga og reglna um ættleiðingar auk laga og reglna upprunaríkis og ákvæða þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og snerta ættleiðingar.