SAGAN

hofdabakki

Skrifstofa Lögmanna Höfðabakka er staðsett tiltölulega miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið á 6. hæð í skrifstofubyggingunni að Höfðabakka 9, beint á móti Húsgagnahöllinni. Skrifstofugarðarnir að Höfðabakka 9 voru byggðir á árunum 1969 til 1980, eftir teikningum feðganna Halldórs Jónssonar og Garðars Halldórssonar. Bogabyggingin hýsti upphaflega verktakaskrifstofur og lágbyggingin ýmisskonar iðnað og aðra starfsemi, þar á meðal Tækniskólann. Bogabyggingin var hönnuð í „síð-fúnktíónalískum“ stíl og hefur stundum verið nefnd “Watergate” vegna þess að hún þykir svipa til þekktrar byggingar með því nafni. Byggingin, sem er eitt af þekktari kennileitum borgarinnar, hýsir nú meðal annars ÍAV, verslun og skrifstofur Opinna kerfa, CreditInfo, auk Lögmanna Höfðabakka. Rekstur lögfræðiskrifstofu hófst á Höfðabakka 9 í ársbyrjun 1983, þegar þrír reynslumiklir lögmenn, Vilhjálmur Árnason hrl., Eiríkur Tómasson hrl. og Ólafur Axelsson hrl., fluttu rekstur sinn þangað úr Lágmúla 5. Sjö árum síðar gekk Hreinn Loftsson hrl. til liðs við þá og Árna Vilhjálmsson hrl. og fékk stofan þá nafnið Lögmenn Höfðabakka. Stofan hefur alla tíð verið í fremstu röð lögmannsstofa á Íslandi. Eigendahópur stofunnar hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás, en auk framangreindra hafa verið meðal eigenda um lengri eða skemmri tíma Brynjólfur Kjartansson hrl., Þórður S. Gunnarsson hrl. og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. Um síðustu aldamót keypti Hreinn Loftsson aðra eigendur út og hóf í kjölfarið samstarf með Þórði Bogasyni hrl. um rekstur lögmannstofu í húsnæðinu. Hreinn dró sig út úr rekstri stofunnar á fyrri hluta árs 2014. Í dag eru eigendur stofunnar fjórir talsins, sem hafa fjölbreyttan bakgrunn og reynslu, en þeir eru Þórður Bogason hrl., Einar Farestveit hdl., Gunnar Ingi Jóhannsson hrl. og Kristín Ólafsdóttir hdl.