Nýr dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Íslandi

Nýr dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Íslandi

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvað í morgun upp dóm í máli Erlu Hlynsdóttur gegn Íslandi í máli sem kært var til dómstólsins í ágúst 2010. MDE komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og dæmdi íslenska ríkið til greiða Erlu sem samsvarar 1.200.000,- kr. í bætur, vegna málsins. Málið er tilkomið vegna niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í meiðyrðamáli gegn Erlu í febrúar 2010. Í því máli dæmdi Hæstiréttur Íslands Erlu fyrir meiðyrði vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda hennar í frétt um eiginkonu Guðmundar Jónssonar, kenndum við Byrgið, og birtust í umfjöllun DV, hinn 31. ágúst 2007. Með ummælunum hafði viðmælandinn lýst þætti eiginkonu Guðmundar Jónssonar í hinu svonefnda Byrgismáli. Eiginkona Guðmundar höfðaði mál gegn Erlu og krafðist þess að fjöldi ummæla í greininni yrðu dæmd dauð og ómerk. Hæstiréttur ómerkti örlítinn hluta ummælanna og dæmdi Erlu til að greiða konunni bætur og málskostnað. MDE hefur nú dæmt að sú niðurstaða Hæstaréttar hafi brotið gegn tjáningarfrelsi Erlu Hlynsdóttur sem blaðamanns.

Þetta er í annað sinn sem MDE kveður upp dóm um að brotið hafi verið gegn tjáningafrelsi blaðamannsins Erlu Hlynsdóttur. Árið 2012 taldi MDE að íslenskir dómstólar hefðu brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að gera Erlu ábyrga fyrir ummælum viðmælanda DV um eiganda veitingastaðarins Strawberries í Lækjargötu í Reykjavík. Þriðja mál Erlu gegn Íslandi er enn til meðferðar hjá dómstólnum, en það varðar einnig mörk tjáningarfrelsis.

Þetta þriðja málið sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir í gegn Íslandi á tveimur árum og varðar mörk tjáningarfrelsis blaðamanna á Íslandi. Í öllum málunum hefur dómstóllinn úrskurðað að niðurstaða íslenskra dómstóla í meiðyrðamáli á hendur blaðamanni hafi brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og verið til þess fallin að vega að rétti og skyldu fjölmiðla til miðlunar upplýsinga um mál sem eiga erindi við almenning.

Lögmenn Höfðabakka hafa rekið öll málin fyrir mannréttindadómstólnum.