Nýr dómur Hæstaréttar um andskýringarregluna

Nýr dómur Hæstaréttar um andskýringarregluna

Fimmtudaginn 11. desember 2014 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þar sem úrslit máls réðust m.a. á hinni svonefndu andskýringarreglu samningaréttarins. Í norrænni réttarframkvæmd hefur mótast svokölluð andskýringarregla (in dubio pro contra stipulatorem), sem rekja má aftur til Rómarréttar. Samkvæmt henni ber að jafnaði að skýra samningsákvæði sem eru umdeilanleg eða óljós þeim aðila í óhag sem samið hefur þau einhliða. Þannig er túlkun samnings þeim í óhag sem hefði átt að hlutast til um skýrara form samnings eða að tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði.

Málavextir þessa máls voru þeir að Penninn ehf. sagði í janúar 2011 upp húsaleigusamningi um húsnæði að Suðurlandsbraut 2. Leigusalinn taldi að ekki hefði verið hægt að segja samningnum upp við það tímamark og krafðist nokkurra mánaða ógreiddrar húsaleigu úr hendi Pennans. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu hins vegar að heimilt hefði verið að segja samningnum upp á þeim tíma sem gert var. Hæstiréttur byggði niðurstöðu sína á því að leigusalinn hefði samið samninginn og með vísan til andskýringarreglu samningaréttar yrði hann að bera hallann af því að ekki væri skýrt í samningnum að óheimilt væri að segja honum upp við það tímamark sem leigutaki gerði.

Lögmenn Höfðabakka ráku málið fyrir Pennann ehf.