FJÖLSKYLDUMÁL. SIFJARÉTTUR

Fjölskyldumál, einnig nefnd sifjamál, er mikilvægt og umfangsmikið svið þar sem reynt getur á flókin álitaefni innan fjölskyldu og milli fjölskyldna. Oft getur verið gott, og ráðlegt, að láta lögmann með sérþekkingu á sviðinu, annast samskipti fyrir sína hönd þegar erfið mál rísa. Málefni á þessu sviði varða allt frá stofnun hjónabands og til loka þess, gerð kaupmála, skiptingar eigna vegna skilnaðar og ráðstöfun forsjár yfir börnum og umgengni. Einnig varðar þetta svið barnaverndarmál á grundvelli barnaverndarlaga.

Hjúskapur, gerð kaupmála, skilnaður o.fl.:

Tiltölulega einfalt er að stofna til hjúskapar og þarf yfirleitt ekki aðstoð lögmanns til þess. Við stofnun hjúskapar er hins vegar oft einnig stofnað til kaupmála, þar sem einstaklingarnir ákveða fyrirfram skiptingu eigna sín á milli, enda er það meginregla þegar kaupmáli hefur ekki verið gerður, að eignir skiptast til helminga við skilnað. Algengt er til dæmis að fólk, sem hvort um sig á börn frá fyrra sambandi en ekki saman, geri kaupmála til að tryggja að það haldi sínum eignum í kjölfar mögulegs skilnaðar eða að eignir þess sem andast fyrr gangi til erfingja þess eingöngu. Kaupmála er hægt að gera í tilefni af stofnun hjónabands eða síðar í hjónabandi. Kaupmáli er formbundið skjal og skiptir miklu máli að það sé gert í samræmi við strangar kröfur laga. Að öðrum kosti kann skjalið að vera ógilt og eru mörg dæmi um það.

Í tilviki skilnaðar kemur að skiptingu eigna og ákvörðun forsjár og umgengi, ef um börn er að ræða. Sem fyrr segir er helmingaskiptareglan svonefnda meginreglan við fjárskipti hjóna, hafi annað ekki verið ákveðið með kaupmála. Slík mál eru oft flókin og erfið og getur borgað sig að ráða sérfræðing til að leysa úr þeim, enda fara slík mál oft fyrir dómstóla til úrlausnar. Sama gildir með ágreining um forsjá yfir börnum og umgengni í kjölfar skilnaðar.

Barnamál og barnaverndarmál:

Réttindi barna eru tryggð í ýmsum lögum. Mikilvægt er að gæta sérstaklega hagsmuna barnanna við skilnað foreldra. Lögmenn okkar veita einstaklingum ráðgjöf í slíkum málum. Jafnframt veitum við ráðgjöf til forsjárlausra foreldra, hvort heldur sem foreldrar hafa verið í hjúskap áður eða ekki. Foreldri kann að vilja leitast eftir breytingu á forsjá, breytingu á umgengni við börn sín, breytingu á meðlagsgreiðslum eða hvers kyns öðrum breytingum er varðar réttindi og skyldur gagnvart börnum.

Lögmenn Höfðabakka hafa einnig sinnt barnaverndarmálum, þar sem opinber afskipti barnaverndaryfirvalda eiga sér stað. Slík afskipti eru mikið inngrip í friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldunnar. Aðstoð lögmanns getur verið fólgin í mætingu með foreldrum á fund barnaverndarnefndar og til að gæta hagsmuna þeirra vegna mögulegra krafna barnaverndaryfirvalda, svo sem ef barnaverndaryfirvöld gera kröfu um að barn/börn sé vistað utan heimilis tímabundið eða ef krafist er sviptingar forsjár.