ÆTTLEIÐINGAR

Lögmenn Höfðabakka búa yfir reynslu og þekkingu af ættleiðingarmálum og hafa aðstoðað foreldra sem vilja hefja ættleiðingarferli eða eru í slíku ferli.

Samkvæmt lögum er unnt að ættleiða hvort tveggja fullorðna og börn. Í dag er ættleiðing barns í eðli sínu verndarúrræði fyrir barnið, með það að markmiði að tryggja barni, sem ekki á fjölskyldu sem getur annast það, möguleika á að fá að alast upp hjá fjölskyldu sem hefur aðstæður til að veita því góðan aðbúnað og uppeldi í samræmi við þarfir barnsins. Ættleiðing er ekki eingöngu úrræði sem tryggir barni umönnun innan fjölskyldu heldur stofnast um leið til ættartengsla þar sem lagaleg tengsl einstaklings við upprunafjölskyldu eru rofin og stofnað er til nýrra samsvarandi tengsla milli barnsins og þess eða þeirra sem ættleiða það.

Ættleiðingar hafa verið flokkaðar með tilliti til þeirra ólíku aðstæðna sem uppi eru. Með frumættleiðingu er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn eða kjörbarn maka umsækjanda eða sambúðarmaka. Frumættleiðingar greinast svo fyrst og fremst annars vegar í ættleiðingar innan lands, eða ættleiðingar íslenskra barna, og hins vegar ættleiðingar milli landa. Þá er einnig til sérstök tegund ættleiðinga, sem eru svokallaðar alþjóðlegar fjölskylduættleiðingar, en þar er átt við ættleiðingu erlends ríkisborgara eða fyrrum erlends ríkisborgara sem á fasta búsetu hér á landi, á tilteknu barni, sem er umsækjanda náskylt og sem er búsett í upprunalandi hans. Annar meginflokkur ættleiðinga eru svokallaðar stjúpættleiðingar en þar er átt við ættleiðingu á barni eða kjörbarni maka umsækjanda eða sambúðarmaka, þar sem ný lagaleg tengsl myndast við þann sem ættleiðir barnið, tengsl við foreldri sem barn býr hjá haldast en tengsl við hitt kynforeldrið rofnar.